föstudagur, 3. ágúst 2007

Brekkusnigilsstigið...

...er áhugaverður kafli í uppvexti einstaklinga af tegundinni Alkóhólikus Frónus, undirtegund yfirtegundarinnar Frónus Frónus. Þess ber þó að geta að þessi skilgreining er afar umdeild meðal vísindamanna. Margir þeirra vilja meina að Alkóhólikus Frónus sé í raun yfirtegundin (höfundur sammála), með ýmsum undirflokkum, t.d. SÁÁus Frónus, Landsbyggðus Frónus, Agureyrikus Óþolandis Frónus og Selfossus Hnakkus Frónus. Enn umdeildara er hvort síðari undirflokkarnir tveir tengist Alkóhólikus Frónus á nokkurn hátt.
Sterk undiralda er nú í vísindasamfélaginu um hvort ekki sé um sérstakar tegundir að ræða. Höfundur vill jafnvel ganga enn lengra og segja að ekki sé um tegundir að ræða heldur mistök af náttúrunnar hendi, frávik sem ber að hunsa.
En allavega þá gengur hluti Alkóhólikus Frónus í gegnum undarlegt stig í þroskaferli sínu, svokallað brekkusnigilsstig. Eingöngu er um lítinn hóp innan yfirtegundarinnar að ræða og mjög misjafnt er hversu lengi það stendur yfir. Hjá sumum einstaklingum líður þetta hjá á einni helgi á meðan aðrir fæðast beint á brekkusnigilsstigið og komast ekki af því það sem eftir er ævinnar.
Eitt er þó sameiginlegt hjá öllum einstaklingum á þessu stigi, fengitíminn.
Fengitíminn er einu sinni á ári og stendur yfir eina helgi, á þeim árstíma sem haust gerir sig klárt til að taka við af sumri. Þá flykkjast einstaklingar á brekkusnigilsstiginu á sama stað, stað sem býður upp á kjöraðstæður til mökunar með háu rakastig og góðri loftræstingu.
Þeir sem stúderað hafa hegðun brekkusniglana á fengitímanum kemur saman um að til að mökun eigi að heppnast sé brekkusniglinum mjög mikilvægt að ná upp jafnvægi í rakastigi innvortis og útvortis. Fyrr getur hann ekki athafnað sig við mökunardansinn, sem stendur mismunandi lengi yfir, allt eftir einstaklingum, sem og rakastigi.
Þá hefur einnig þótt markvert á hversu ólíkan hátt einstaklingar á brekkusnigilsstiginu bera sig að við mökun. Á meðan sumir draga sig inn í þar til gerðar skeljar þá eru aðrir sem láta sig skeljar engu skipta og maka sig við náttúrulega aðstæður, upp í brekku.
Lengi má hafa orðræðu um þetta stórmerkilega fyrirbæri, en betra er þó að láta staðar numið hér, láta létta kynningu á fyrirbærinu duga.
Lifið heil!
Skál!!!

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Já þetta var skemmtileg lesning, ég hef alltaf svo brennandi áhuga á öllu svona náttúruvísinda-

En geturðu frætt mig um mökunarhegðun þeirra sem ekki tilheyra þessari undirtegund? Ég hef nefnilega dvalið svo lengi utan kjörlendis og viðeigandi mökunarsiðir því algjörlega dottnir upp úr hausnum á mér.

Nafnlaus sagði...

Já þessi pistill hittir naglann á höfuðið. Vafalaust hefurðu stundað árlegar rannsóknir á brekkusnigilsstiginu og hefur notað undanfarin ár til að vinna úr þeim rannsóknum. Vafalaust kemur út á næstunnu bók um Alkóhólikus Frónus, þar sem gefur að líta niðurstöður úr rannsóknum þínum:)

Geimveran Tjess sagði...

Chazz: Hmmm... Það er nú það. Held þeir séu ekkert ósvipaðir. Eiga sér bara ekki stað í Herjólfsdal. :)

Grimms: Ef einhverjar rannsóknir fóru fram af minni hálfu á þessum tíma þá var það allt á ómeðvituðu stigi. Og dettur þér í hug að latur maður eins og ég nenni að skrifa bók. :)

Nafnlaus sagði...

Ókei, læt á þetta reyna um næstu helgi!

Geimveran Tjess sagði...

Gangi þér vel. :)